Greindu betur- samþætting stærðfræði, tölfræði og samfélagsgreina

Námskeið í opnu Menntafléttunni

Staða
Ólokið
Verð
Opið námskeið
Hefja námskeið
Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, námssamfélög þeirra og teymi í nýtingu gagna og gagnagrunna í kennslu ólíkra greina. Markmið námskeiðsins er einnig að leiða saman kennara  í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla og búa til vettvang þar sem kennarar efla þekkingu sína á gögnum í skólastarfi. Rauður þráður í nálgun námskeiðsins er að vinna með lykilhæfniþættina; tjáningu og miðlun, gagnrýna hugsun og nýtingu miðla og upplýsinga. Í hagtölum og opinberum gagnagrunnum er mikið magn tölulegra upplýsinga um samfélagið sem nýta má í skólastarfi. Miðlun og notkun hagtalna og hlutlausra tölfræðiupplýsinga stuðla að upplýstri þjóðfélagsumræðu, gagnrýnni hugsun og eru grundvöllur lýðræðislegra ákvarðana. Hagtölur, gögn og gagnagrunnar eru vannýtt verkfæri í námi og kennslu, verkfæri sem bjóða upp á fjölbreytta nálgun í ólíkum faggreinum. Á námskeiðinu verður fjallað um helstu hugtök sem tengjast nýtingu gagna og gagnaúrvinnslu, möguleika við nýtingu á opinberum gögnum og helstu gagnagrunna. Viðfangsefni námskeiðsins snerta kennslu í samfélagsfræði, félagsgreinum, stærðfræði, tölfræði, hagfræði sem og náttúrufræðigreinum. Þátttakendur kynnast verkfærum, nálgun og leiðum til að þróa eigin kennslu með notkun opinberra sem og alþjóðlegra hagtalna og gagnagrunna. Námskeiðið er haldið fyrir tilstuðlan styrks frá Eurostat – evrópsku hagstofunni og Hagstofu Íslands sem einnig skipuleggur keppnina Greindu betur fyrir unglingastig grunnskóla og framhaldsskólastigið. Námskeiðið er opið öllum kennurum, óháð því hvort nemendur þeirra hafi tekið þátt í keppninni. Vert er að vekja athygli á sigurmyndbandi Ólafar Maríu Steinarsdóttur, nemanda í Tækniskólanum, sem hreppti 2. sætið í keppninni vorið 2022. Við lok námskeiðs geta þátttakendur
    • leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum um viðfangsefni námskeiðsins.
    • metið ólík gögn og gagnagrunna og ýtt undir forvitni nemenda um notkun þeirra.
    • nýtt tölfræði og opinberar hagtölur fyrir nýsköpun í námi og kennslu.
    • beitt fjölbreyttum og hagnýtum verkfærum til að efla tjáningu, miðlun og upplýsingalæsi nemenda.
    • skoðað með gagnrýnu hugarfari með nemendum sínum hvað hlutverki gögn þjóna á ólíkum sviðum samfélagsins.
    • þekkt og fjallað um gæði rannsókna og hvernig má nýta – og misnota rannsóknarniðurstöður.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar? Námskeiðið er fyrir  grunnskólakennara í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólakennara í samfélagsgreinum, náttúruvísindum, félagsgreinum, stærðfræði, hagfræði og  tölfræði. Námskeiðið snertir á lykilhæfniþáttum á borð við tjáningu og miðlun, nýtingu miðla og upplýsinga og gagnrýnni hugsun. Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög kennara blómstra. Hvar og hvernig fer námskeiðið fram? Kennslan fer fram í sex rafrænum lotum á heimasíðu Menntafléttu á þeim tímum sem hentar þátttakendum sjálfum. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þátttakenda í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir geta fléttað saman við daglegt starf, þeir leiða svo samtal á teymisfundum um hvernig gengur. Umsjón og kennsla Anna Hera Björnsdóttir, stærðfræðikennari í Versló og Víðir Þórarinsson, stærðfræðikennari í Kársnesskóla.

Kennarar

Víðir Þórarinsson

stærðfræðikennari í Kársnesskóla

Anna Hera Björnsdóttir

Stærðfræðikennari í Versló

Innskráning

Ekki með aðgang?

Skráðu þig, það kostar ekkert!

Hafa samband

Uppfæra notanda

Uppfæra notanda