5. lota – Sjálfsmynd og samskipti í lýðræðislegu leikskólastarfi
Kæru þátttakendur. Ég heiti Fríða Bjarney Jónsdóttir, er leikskólakennari í grunninn en vinn núna hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Ég vann í mörg ár í leikskólanum Lækjaborg en síðustu árin þar leiddi ég þróunarverkefnið Lækjarborg – fjölmenningarlegur leikskóli. Ég lærði ótrúlega margt í því verkefni, kynntist börnum og foreldrum frá fjölbreyttum menningarheimum og áttaði mig á því hvað það skiptir miklu máli fyrir börn og fjölskyldur að halda í móðurmálið sitt og menningu um leið og þau læra á íslenska samfélagið og að tala íslensku. Eftir þetta fór í ég í mastersnám í fjölmenningarfræðum og vann síðan sem verkefnastjóri fjölmenningar í leikskólum Reykjavíkur í 10 ár. Síðasta haust varði ég doktorsrannsóknina mína þar sem ég skoðaði samskipti leikskólakennara við fjöltyngd börn og skoðaði hvernig unnið var með sjálfsmynd þeirra og samstarf við foreldra. Ég hlakka til að hitta ykkur og ræða saman um efni lotunnar en þar mun ég skoða með ykkur hvernig samskipti við börn, virk þátttaka barna og trú á eigin getur haft áhrif á sjálfsmynd þeirra og málþroska. Það hefur um leið mikil áhrif á það hvernig þeim líður í leikskólanum. Ég hlakka til að hitta ykkur.