4. lota – Menningarnæmi og fjölmenning í leikskólastarfi
Halló ég heiti Nichole Leigh Mosty. Ég hef unnið með fjölbreytileika, fjölmenningu og inngildingu í mörg ár, mest í starfi mínu sem leikskólakennari og stjórnandi. Í starfi mínu sem forstöðumaður Fjölmenningarseturs, vann ég mikið við að aðstoða aðra við að geta unnið með fjölbreytileika, fjölmenningu og inngildingu. Í mörg ár vann ég á leikskólanum Ösp í Breiðholti þar sem ég lærði svo mikið ekki bara um fjölbreytileika, heldur um sjálfa mig og hversu mikilvægur fjölbreytileiki og inngilding er fyrir okkur og samfélagið okkar. Hvergi er betra að vinna með það en í leikskóla svo sannarlega! Tækifærin eru ótakmörkuð. Ég var líka svo lánsöm að gegna formennsku í Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi í 4 ár þar sem ég fékk að halda áfram þeirri vegferð að vinna að eigin viðhorfum og skilningi á fjölbreytileika. Í dag starfa ég sem leikskólastjóri í leikskólunum Mánalandi í Vík í Mýrdal.
Í þessari lotu munum við læra um mikilvæg hugtök sem tengjast því að vinna með fjölbreytileika í leikskólum, hugmyndir og verkefni til að vinna með börnum og að sjálfsögðu hvernig við getum litið inn á við á okkar eigin viðhorf um fjölbreytileika.