Erfið og krefjandi hegðun barna og unglinga – Hvað er til ráða? Vorönn 2025
Menntafléttunámskeið
21. janúar
-
1. apríl
Lýsing
Þróunarhringur
Sækja um ráðgjöf
Dagskrá
Erfið og krefjandi hegðun barna og unglinga – Hvað er til ráða?
Skólinn er griðastaður barnanna og mikil ábyrgð hvílir á starfsfólki skóla að hlúa að sínum nemendum til að veita þeim góð skilyrði til náms, tryggja öryggi og vellíðan. Á meðan nemendur eru í skólanum er það á ábyrgð starfsfólk að vera tilbúið að grípa inn í aðstæður ef barn sýnir t.d. af sér erfiða og/eða krefjandi hegðun í hverju svo sem hún kann að birtast t.d. sem hegðunarvandi, ofbeldi, ógn eða áhættuhegðun. Í því skyni er mikilvægt að efla starfsfólk skóla í forvörnum og fræðslu um gagnreynd úrræði og bjargráð sem henta ólíkum börnum svo þau fái notið sín sem best í sínu skólaumhverfi.
Markmið með þessu námskeiði er að auka skilning, færni og öryggi starfsfólks skóla við að takast á við erfiða og krefjandi hegðun barna innan skóla. Námskeiðið byggir annars vegar á fræðslu um fjölbreyttar áskoranir barna sem geta leitt til erfiðrar hegðunar og hins vegar á kynningu og þjálfun í viðurkenndum, gagnlegum og gagnreyndum atferlismótandi aðferðum innan skóla. Má m.a. nefna hagnýt uppeldisráð til að hvetja til jákvæðrar hegðunar, kosti kortlagningar, aðlögun umhverfis, viðbragðsáætlanir, verkferlar og agaferli. Þá verður kennurum einnig kynnt gagnleg ráð í skólastofunni t.a.m. tengd skynörvun, skynvænu rými, sjónrænu skipulagi, griðarstað, eflingu stýrifærni, félagsfærni, eflingu tengsla, hagnýtingu styrkleika og áhugasviði barna og góðum ráðum í samskiptum við foreldra.
Helstu markmið
- Auka skilning starfsfólks í skólum á áskorunum barna og erfiðri hegðun.
- Efla færni og öryggi starfsfólks við að takast á við hegðunarvanda.
- Kynna gagnreyndar aðferðir til að stuðla að jákvæðri hegðun í skólastarfi.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur:
- Leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í skólum og á vinnustöðum.
- Beitt hagnýtum aðferðum til að efla jákvæða hegðun og umhverfisaðlögun.
- Innleitt viðbragðs- og skipulagsáætlanir innan skólaumhverfis.
- Eflt tengsla-, stýri- og samskiptafærni nemenda.
Dagsetningar
Myndband með fyrirlestri er sent út viku fyrir hverja lotu, þar sem þátttakendur geta undirbúið sig og rætt efnið í sínum skóla.
21. janúar kl. 14.30-15.30
Lota 1: Kynning og umræður
4. febrúar kl. 14.30-15.30
Lota 2: Hegðun og mikilvægi kortlagningar
18. febrúar kl. 14.30-15.30
Lota 3: Ráð til að efla tengsl, stýrifærni og samskipti við foreldra
4. mars kl. 14.30-15.30
Lota 4: Fyrirbyggjandi leiðir, viðmót starfsmanna og ábyrgð, viðbrögð við ofbeldi í skólastarfi
18. mars kl. 14.30-15.30
Lota 5: Viðbragðs- og skipulagsáætlanir
1. apríl kl. 14.30-15.30
Lota 6: Lokaskref, eftirfylgni, hvað hefur áunnist, áframhaldandi vinna og lærdómur
Á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar er gert ráð fyrir að þátttakendur nýti þróunarhring í fjórum skrefum, sem styður við samræður um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teymi sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymi þeirra framkvæmir áætlun og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendur brugðust við.
Þátttakendum á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar stendur til boða að fá ráðgjöf og stuðning um hvernig best er að koma sér af stað við að vinna efni hvers námskeiðs. Jafnframt fá þeir kynningu á þeirri hugmyndafræði sem námskeið Menntafléttunnar byggja á.
Ráðgjöfin verður sniðin að þörfum þeirra sem sækja um hana og verður án endurgjalds skólaárið 2024-2025.
Sótt er um ráðgjöf á vefsvæði hvers námskeiðs fyrir sig.
Mælt er með að þátttakendur á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar sæki um ráðgjöf til að koma sér af stað við að vinna efni námskeiðsins.
Í kjölfarið fá þeir póst frá sérfræðingi Menntafléttunnar.
Myndband með fyrirlestri er sent út viku fyrir hverja lotu, þar sem þátttakendur geta undirbúið sig og rætt efnið í sínum skóla.
21. janúar kl. 14.30-15.30
Lota 1: Kynning og umræður
Það sem verður m.a. gert í þessum tíma er að kynnast. Hafa umræður um væntingar og áskoranir í skólaumhverfinu. Umræður um forvarnir og samstarf gegn ofbeldi og krefjandi hegðun í skólaumhverfi. Rætt um hvernig hugað sé að öryggi í ykkar skólum og rýnt í vinnulag hvers skóla og velt fyrir hver þekking starfsfólks sé á því vinnulagi.
4. febrúar kl. 14.30-15.30
Lota 2: Hegðun og mikilvægi kortlagningar
Það sem verður m.a. gert í þessum tíma er að hlusta á erindi um áskoranir barna tengt erfiðri og krefjandi hegðun í skólaumhverfi. Farið yfir mikilvægi kortlagningar og horfa á stóru myndina og hvað sé átt við með því. Farið verður yfir mismunandi tegundir skráninga og umræður um hvernig slíkri upplýsingaröflun/kortlagningu sé sinnt í skólum. Þá verður einnig rætt um hvernig hugað sé að úrvinnslu gagna eftir kortlagningu. Rætt um verklag tengt því og hvað gæti verið gott að hafa í huga er varðar nemandann, samstarfsfólk og foreldra uppá frekari upplýsingaöflun, ef þess er þörf, sem og samstarf.
18. febrúar kl. 14.30-15.30
Lota 3: Ráð til að efla tengsl, stýrifærni og samskipti við foreldra
Það sem verður m.a. gert í þessum tíma er að hlusta á erindi um hvaða þættir hafi mikil áhrif á það hvernig nemandi mótar sína hegðun og líðan og áhrif stýrifærninnar á nemandann. Félagsfærniþjálfun, sjálfstyrking, lausnamiðuð hugsun og ýmiss bjargráð. Hugað að því hvernig styrkjum við tengsl okkar við nemandann og foreldra.
4. mars kl. 14.30-15.30
Lota 4: Fyrirbyggjandi leiðir, viðmót starfsmanna og ábyrgð, viðbrögð við ofbeldi í skólastarfi
Farið verður yfir þær fyrirbyggjandi leiðir sem hafa reynst vel í skólastarfi, hvernig viðmót okkar getur haft jákvæð og neikvæð áhrif á bæði líðan og hegðun, sem hefur aftur áhrif á tengsl okkar við nemendur. Að lokum verður farið yfir vissar leiðir sem hægt er að fara þegar nemandi er að beita ofbeldi sem beinist að öðrum nemendum, starfsfólki og/eða umhverfi.
Gestakennari: Hlynur Jónsson skólastjóri.
18. mars kl. 14.30-15.30
Lota 5: Viðbragðs- og skipulagsáætlanir
Í þessum tíma verður m.a. farið yfir mikilvægi þess að setja upp plan/verklag og hvernig hugað sé að innihaldi þess. Hverjir koma að uppsetningu og hvernig er hugað að innleiðingu þess í skólaumhverfinu. Hvaða þætti þarf að hafa í huga hvað varðar nemandann sjálfan, umhverfið, starfsmannahópinn og foreldra. Áhrif hegðunar á líðan og atferli nemenda, starfsfólks og foreldra. Væntingar, viðhorf, sjálfsstjórn, samvinna og seigla.
1. apríl kl. 14.30-15.30
Lota 6: Lokaskref, eftirfylgni, hvað hefur áunnist, áframhaldandi vinna og lærdómur
Hverju hefur þessi fræðsla skilað og getum við dregið lærdóm af því. Eftirfylgni og næstu skref.