Deildarstjórinn sem faglegur leiðtogi í leikskólastarfi
Menntafléttunámskeið
24. september
-
20. mars
Lýsing
Þróunarhringur
Sækja um ráðgjöf
Dagskrá
Deildarstjórinn sem faglegur leiðtogi í leikskólastarfi
Síðasti dagur til að skrá sig er 22. september.
Markmið námskeiðsins er að styðja deildarstjóra í leikskólum við að efla hæfni sína sem faglegur leiðtogi. Námskeiðið er hagnýtt og sniðið að þörfum starfandi deildarstjóra og taka umfjöllunarefni mið af daglegum viðfangsefnum leikskólans. Rætt verður um hvað skiptir máli við að leiða starf á deild og hvað hafa þarf í huga til að samstarf og samvinna geti verið með virkum og skapandi hætti. Einnig verður komið inn á tímastjórnun og innlegg deildarstjóra í því að gera deildarstarfið markvissara, hvað varðar foreldrasamvinnu, starfsmannamál og utanumhald verkefna.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- Leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í skólum og á vinnustöðum.
- Tileinkað sér hæfni til að styrkja samvinnu innan deilda.
- Lagt mat á skipulag og nýtingu tíma í leikskólastarfi.
- Nýtt skráningar til mats og endurbóta í starfi með börnum.
- Stuðlað að öflugu samstarfi við foreldra og annað fagólk innan og utan skóla.
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er fyrir starfandi deildarstjóra í leikskólum. Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum skóla/stofnun, en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í skóla þar sem námssamfélög blómstra.
Á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar er gert ráð fyrir að þátttakendur nýti þróunarhring í fjórum skrefum, sem styður við samræður um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teymi sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymi þeirra framkvæmir áætlun og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendur brugðust við.
Þátttakendum á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar stendur til boða að fá ráðgjöf og stuðning um hvernig best er að koma sér af stað við að vinna efni hvers námskeiðs. Jafnframt fá þeir kynningu á þeirri hugmyndafræði sem námskeið Menntafléttunnar byggja á.
Ráðgjöfin verður sniðin að þörfum þeirra sem sækja um hana og verður án endurgjalds skólaárið 2024-2025.
Sótt er um ráðgjöf á vefsvæði hvers námskeiðs fyrir sig.
Mælt er með að þátttakendur á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar sæki um ráðgjöf til að koma sér af stað við að vinna efni námskeiðsins.
Í kjölfarið fá þeir póst frá sérfræðingi Menntafléttunnar.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum á ZOOM, sem eru þrjár klukkustundir að lengd, skólaárið 2024–2025. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í skólum þátttakenda í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir geta fléttað saman við daglegt starf, þeir leiða svo samtal á teymisfundum um hvernig gengur. Gestakennarar koma í heimsókn og miðla góðum hugmyndum af vettvangi.
Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Dag- og tímasetningar lota
Loturnar fara fram á milli klukkan 9:00 og 12:00.
2024
Lota 1 – Þriðjudagur 24. september
Lota 2 – Fimmtudagur 31. október
Lota 3 – Miðvikudaginn 27. nóvember
2025
Lota 4 – Miðvikudagur – 15. janúar
Lota 5 – Þriðjudagur 18. febrúar
Lota 6 – Fimmtudagur 20. mars
Viðfangsefni námskeiðsins
Lota 1
Að leiða öflugt deildarstarf
Í fyrstu lotu námskeiðsins kynnast þátttakendur hver öðrum og hugmyndafræði námskeiðsins. Fjallað verður um einkenni og lykilþætti námssamfélaga og þátttakendur eiga samtal um hvernig þeir geta þróað og stutt við námssamfélög í sínum skóla. Í lotunni verður farið yfir hvaða þættir skipta máli þegar kemur að því að leiða farsælt deildarstarf. Fjallað verður um skipulag, verkaskiptingu, sveigjanleika, samskipti og ábyrgð. Mikilvægi þess að horfa í mannauðinn og tileinka sér árangursríka samskiptahætti í teymum og hvaða leiðir hægt er að fara til að skoða og ræða samskipti á vettvangi.
Gestakennari í lotunni er Heiðrún Jóhannsdóttir, deildarstjóri í leikskólanum Kiðagili á Akureyri.
Lota 2
Skipulag og upplýsingamiðlun á deild og í skóla
Í lotunni verður fjallað um skipulag og upplýsingamiðlun á deild og í skóla m.a. út frá þáttum eins og yfirsýn og sjálfþekkingu, sjálfsstjórn, forgangsröðun og jafnvægi. Skoðað verður hvernig tímastjórnun getur haft áhrif á gang og gæði skólastarfsins. Fjallað verður um dreifða styðjandi forystu og hvernig hægt er að auka skilvirkni með því að byggja upp traust og deila verkefnum í starfsmannahópnum. Í annarri lotu verður auk þess fjallað um þróunarhringinn sem verkfæri til starfsþróunar – og hvernig leiða má samtöl um breytta starfshætti í leikskóla.
Gestakennarar koma í heimsókn og kynna hlutverk og mikilvægi reglulegra fagfunda.
Lota 3
Faglegur leiðtogi – innra mat og skráningar í starfi leikskóladeilda
Í lotunni verður fjallað um innra mat í leikskóla. Innra mat gefur mikilvægar upplýsingar um hvar við stöndum og gerir okkur kleift að taka ákvarðanir byggðar á gögnum. Innra mat er öflugt verkfæri til að vinna markvisst að því að efla starfið og stefna þangað sem við viljum fara. Í lotunni skoðum við einnig hvernig markvissar skráningar nýtast til að fylgjast með og efla skólastarf. Í þriðju lotu verða einnig skoðaðar leiðir til að rýna í eigin starfshætti, pæla og skrá ígrundun um leikskólastarfið.
Gestakennarar fjalla um leikskráningar og mikilvægi þeirra í leikskólastarfi.
Lota 4
Umbótaáætlanir, samskipti og samtöl við samstarfsfólk og foreldra
Í lotunni verður sjónum beint að úrvinnslu skráninga og gerð umbótaáætlana. Skoðað verður hvaða leiðir hafa gefist vel við að festa gæðastarf í sessi. Einnig verður fjallað um samskipti og samtöl deildarstjóra við samstarfsfólk og foreldra. Í fjórðu lotu ræða þátttakendur einnig saman um áskoranir námssamfélaga og opna úrræðabanka námskeiðsins.
Gestakennari fjallar um starf deildarstjórans og þær breytingar sem kennarinn gerði á starfi sínu eftir að hafa tekið þátt í námskeiðinu á síðasta skólaári.
Lota 5
Vinnustaðamenning og mannauður – að móta og byggja upp öflugt samstarf
Í fimmtu lotu verður rætt um hvað einkennir farsælt samstarf í skólastarfi. Rætt verður um vinnustaðamenningu og samskipti á vinnustöðum. Rýnt verður í hvað einkennir góðan vinnufélaga og hvernig hægt er að stuðla að og byggja upp traust og öflugt samstarf á deildum.Auk þess verður fjallað um teymisvinnu og hvernig hægt er að byggja upp öflug teymi þar sem rödd allra heyrist og samskipti eru jákveð og árangursrík.
Gestakennari fjallar um mikilvægi þess að nýta hrós, horfa á styrkleika og rýna í starfsmannahópinn sinn.
Lota 6
Samantekt og kynningar á uppskeru námskeiðsins
Í síðustu lotu námskeiðsins ræða þátttakendur reynslu sína og kynna hver fyrir öðrum vel heppnuð viðfangsefni vetrarins. Í lokalotunni fjalla þátttakendur um hugsanleg næstu skref í þeirra námssamfélagi.
Gestakennari fjallar um reynslu sína af því að taka þátt í námskeiðinu skólaárið 2023-2024. Kennarinn fjallar um hvernig hann horfði í eigin barm, veitti nýjum starfsmönnum sem komu á deildina sérstaka athygli og segir frá þeim breytingum sem hann gerði á meðan að á námskeiðinu stóð.
Umsjónaraðilar námskeiðs
Íris Hrönn Kristinsdóttir
Leikskólakennari og ráðgjafi hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri
Inda Björk Gunnarsdóttir
Skólastjóri á Kiðagili