Lestur á yngsta stigi grunnskóla – Vorönn 2025
Menntafléttunámskeið
21. janúar
-
1. apríl 2024
Lýsing
Þróunarhringur
Sækja um ráðgjöf
Dagskrá
Lestur á yngsta stigi grunnskóla
Á námskeiðinu Lestur á yngsta stigi grunnskóla verður fjallað um lestrarkennslu út frá áherslum aðalnámskrár í íslensku: á talað mál, hlustun og áhorf, á lestur og bókmenntir, á ritun og á málfræði. Auk þess verður leitast við að skoða hvaða grunn að læsi leikskólinn veitir, hvernig mat á læsi fer fram í leikskólum og hvernig grunnskólinn getur nýtt sér það mat sem grunn að skipulagi á námi og kennslu í upphafi lestrarnámsins.
Fjallað verður um nokkrar kennsluaðferðir og verður lögð áhersla á að skoða hvernig má best mæla árangur og framfarir nemenda í lestrarnáminu og hvernig kennarar geta nýtt sér matið til að gera breytingar á kennslunni. Þá verður einnig fjallað um samstarf við heimilin, fræðslu um heimanám og hvaða leiðir er hægt að fara til að einstaklingsmiða heimanám.
Námskeiðið byggist á sex þróunarhringjum og í hverjum þróunarhring er unnið með afmarkaðan þátt læsis. Loturnar eru kenndar frá klukkan 14:15-15:45.
Lota 1: Grunnur að læsi – 21. janúar
Lota 2: Hljóðavinna og lesfimi – 4. febrúar
Lota 3: Lesskilningur og bókmenntir – 18. febrúar
Lota 4: Talað mál, hlustun og áhorf – 4. mars
Lota 5: Ritun og málfræði – 18. mars
Lota 6: Samstarf við heimilin – 1. apríl
Við lok námskeiðs geta þátttakendur:
-
- leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í skólum og á vinnustöðum.
-
- rýnt í hvernig niðurstöður skimana úr leikskóla eru nýttar í þeim skólum sem þeir starfa í og gert áætlun um hvernig kennarar geta nýtt gögnin til að skipuleggja kennsluna í upphafi 1. bekkjar.
-
- skoðað afmarkaða þætti læsis í tengslum við aðalnámskrá grunnskóla.
-
- fengið fræðslu um lestrarkennsluaðferðir þar sem sjónum er annars vegar beint að lesfimi og hins vegar lesskilningi.
-
- aflað sér þekkingar á tengslum skriftar, fingrasetningar og ritunar.
-
- öðlast skilning á mikilvægi þess að mæla árangur og meta framfarir nemenda á afmörkuðum tímabilum.
-
- lagt drög að einstaklingsmiðuðu heimanámi.
Á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar er gert ráð fyrir að þátttakendur nýti þróunarhring í fjórum skrefum, sem styður við samræður um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teymi sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymi þeirra framkvæmir áætlun og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendur brugðust við.
Þátttakendum á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar stendur til boða að fá ráðgjöf og stuðning um hvernig best er að koma sér af stað við að vinna efni hvers námskeiðs. Jafnframt fá þeir kynningu á þeirri hugmyndafræði sem námskeið Menntafléttunnar byggja á.
Ráðgjöfin verður sniðin að þörfum þeirra sem sækja um hana og verður án endurgjalds skólaárið 2024-2025.
Sótt er um ráðgjöf á vefsvæði hvers námskeiðs fyrir sig.
Mælt er með að þátttakendur á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar sæki um ráðgjöf til að koma sér af stað við að vinna efni námskeiðsins.
Í kjölfarið fá þeir póst frá sérfræðingi Menntafléttunnar.
Lota 1: Grunnur að læsi – 21. janúar frá klukkan 14:15-15:45
Þróunarhringurinn – hvernig notum við hann í tengslum við hverja lotu og í gegnum allt námskeiðið.
Hljóðkerfisvitund, málskilningur, máltjáning og orðaforði.
Skimunarpróf í leikskóla og við upphaf 1. bekkjar.
Umræður um upplýsingar sem fylgja nemendum á milli skólastiga og hvernig má best nýta þær í grunnskólanum.
Rýnt í vinnulag hvers skóla.
Lota 2: Hljóðavinna og lesfimi – 4. febrúar frá klukkan 14:15-15:45
Mikilvægi hljóðavinnu við stafainnlögn og að vinna með tengsl bókstafs og hljóðs í gegnum sem flest skilningarvit; að sjá, heyra, snerta, segja, benda og skrifa.
Þjálfun hljóðkerfisvitundar á yngsta stigi.
Skimanir og mat á fyrstu stigum lestrarnámsins, hvaða verkfæri standa okkur til boða?
Umræður um hvers vegna það er mikilvægt að þjálfa lesfimi og hvernig kennarar geta nýtt sér niðurstöður þeirra prófa sem Miðstöð menntunar og skólaþjónustu gefur út til að taka ákvarðanir um næstu skref í kennslu.
Kennarar rýna í hvernig þekking, framfarir og árangur nemenda á yngsta stigi er metin í þeirra skólum.
Lota 3: Lesskilningur og bókmenntir – 18. febrúar frá klukkan 14:15-15:45
Hvernig getum við eflt lesskilning nemenda? Fræðsla um grunn að lesskilningi og hvernig kennarar geta eflt lesskilning nemenda með fjölbreyttum leiðum.
Rætt verður um mat á lesskilningi og hvaða leiðir hafa gefist kennurum vel við að þjálfa lesskilning.
Rýnt í bókmenntir og lesskilning í þeim tilgangi að finna leiðir til að efla áhugahvöt nemenda.
Lota 4: Talað mál, hlustun og áhorf – 4. mars
Áhersla á að skoða hæfniviðmið í aðalnámskrá grunnskóla sem tengjast töluðu máli, hlustun og áhorfi.
Fjallað um mikilvægi samræðna í námi í þeim tilgangi að hvetja til máltjáningar.
Hlustunarskilningur, eftirtekt og athygli.
Jafningjafræðsla: Kennarar rýna í eigin vinnubrögð og segja frá verkefnum sem hafa gefist vel.
Lota 5: Ritun og málfræði – 18. mars frá klukkan 14:15-15:45
Fjölbreyttar leiðir í ritun og mat á ritun.
Rýnt í ritunarrammann (ef hann verður kominn út)
Hefur skrift áhrif á ritun? Hvað með fingrasetningu?
Hæfniviðmið í málfræði skoðuð og rædd í tengslum við ritun og máltjáningu.
Hvernig glæðum við áhugann á ritun og málfræði?
Lota 6: Samstarf við heimilin – 1. apríl frá klukkan 14:15-15:45
Fjallað um hvað foreldrar þurfa að kunna til að geta aðstoðað börnin sín við heimanámið.
Mikilvægi fræðslu til foreldra, til dæmis í þeim tilgangi að kenna þeim þær leiðir sem notaðar eru í skólanum og mikilvægi þess að leiðrétta villur eins og til dæmis rangt blýantsgrip og rangan stafdrátt.
Rýnum í tilgang og markmið með heimanámi og hvernig má nýta niðurstöður úr skimunum og námsmati til að einstaklingsmiða heimanám.