Náttúruvísindi, tækni og málörvun í leikskóla
Námskeið í opnu Menntafléttunni
Lýsing
Þróunarhringur
Sækja um handleiðslu
Dagskrá
Markmið námskeiðsins er að styðja við þátttakendur, þeirra námssamfélög og teymi með áherslu á náttúruvísindi og tækni. Þátttakendur fá hugmyndir og verkfæri til að vinna með tungumál og þróun þekkingar leikskólabarna með náttúruvísindi í brennidepli. Fjallað verður um leiðir til að byggja ofan á hugmyndir og tilgátur leikskólabarna um vísindaleg fyrirbæri. Þátttakendur munu lesa um og kynnast leiðum til að vinna með barnabókmenntir sem kveikju að vinnu með náttúruvísindi og tækni í leikskólastarfinu.
Við lok námskeiðs geta þátttakendur
- leitt samtöl um breytta starfshætti í námssamfélögum og teymum í leikskólum.
- unnið með hugmyndir og tilgátur leikskólabarna, hugtök og ferla náttúruvísindanna.
- leitt vinnu með áherslu á sagnorð og tungumál náttúruvísindanna með leikskólabörnum.
- unnið með tækni og náttúruvísindi út frá barnabókmenntum
Fyrir hverja er námskeiðið og hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar?
Námskeiðið er fyrir leikskólakennara og starfsfólk sem hefur áhuga á þróun námssamfélags innan síns leikskóla með áherslu á náttúruvísindi. Reynslan hefur sýnt fram á að farsælt sé að fleiri en einn þátttakandi sé frá hverjum leikskóla, en það er þó ekki skilyrði.
Eindregið er hvatt til þess að þátttakendur séu í samráði við sína stjórnendur um þátttöku á námskeiðinu. Með því eru stjórnendur meðvitaðir um og samábyrgir um að styðja við þróun námssamfélaga innan sinna stofnana. Hér er myndband sem lýsir mikilvægu hlutverki stjórnenda sem eiga þátttakendur á Menntafléttunámskeiðum og hér er texti sem lýsir þeim skilyrðum sem verða að vera til staðar í leikskóla þar sem námssamfélög blómstra.
Á námskeiðum Opnu Menntafléttunnar er gert ráð fyrir að þátttakendur nýti þróunarhring í fjórum skrefum, sem styður við samræður um innleiðingu breyttra starfshátta í námi og kennslu. Skrefin fjögur eru:
Skref A: Þátttakendur undirbúa sig með lestri eða áhorfi – og undirbúa spurningar.
Skref B: Þátttakendur funda með teymi sínu og gera áætlun um útfærslu í starfi.
Skref C: Þátttakendur og teymi þeirra framkvæmir áætlun og skrá hjá sér athuganir.
Skref D: Þátttakendur funda aftur með teyminu og ræða hvernig til tókst og hvernig nemendur brugðust við.

Kennarahópar sem ætla að taka námskeið á vef Opnu Menntafléttunnar geta fengið handleiðslu eða ráðgjöf frá sérfræðingum. Handleiðslan felst í að sérfræðingur hittir kennarahópinn í sex klukkustundir á námskeiðstímanum. Samkomulag er um tímasetningar fundanna. Gert er ráð fyrir að ráðgjöfin fari fram á ZOOM.
Skólastjóri verður að sækja um ráðgjöfina fyrir hönd síns skóla. Kostnaður við handleiðslu á einu námskeiði er 100 þúsund krónur sem skólinn borgar áður en ráðgjöfin hefst.
Hægt er að semja um sérsniðna handleiðslu fyrir hópa með því að senda tölvupóst á Katrínu Valdísi sem hefur netfangið kava@hi.is.
Hvar og hvernig fer námskeiðið fram?
Kennslan fer fram í sex lotum á vef Menntafléttu á þeim tímum sem henta þátttakendum sjálfum. Nám þátttakenda fer þó aðallega fram í leikskólum þátttakenda í samtali teyma um þróun náms og kennslu. Þátttakendur fá hagnýtar kveikjur í lotunum sem þeir – og teymin þeirra geta fléttað saman við daglegt leikskólastarf. Í upphafi hverrar kennslulotu er farið yfir reynslu þátttakenda af því að nýta þróunarhringinn frá síðustu lotu.
Kennarar
Kristín Norðdahl
Dósent í náttúrufræðimenntun.
Anna Sofia Wahlström
Leikskólakennari í Reykjanesbæ